Lykilskilaboð fyrir stjórnendur sjúkrahúsa

upplýsingaefni helstu skilaboð verkfærasettsefni

Verkefni 
1.    Verkefni ykkar hvað varða bætta sýklalyfjanotkun eru m.a. [31,42,56,71,75]:
a)    Að setja saman þverfaglegt teymi fyrir áætlun í sýklalyfjastjórnun á þínu sjúkrahúsi. Teymið þarf að vera með smitsjúkdómalækna, sýkla- og lyfjafræðinga og fá fjárstyrki og aðföng tileinkuð verkefnum þess.
b)    Aðstoða við innleiðingu viðmiðunarleiðbeininga fyrir sýklalyfjanotkun og sýkingavarnir.
c)    Innleiðing á markvissri fræðslu og þjálfun sem:
i.    bætir greiningu og meðferðarstjórnun sjúklinga;
ii.    tryggir að ráðleggingum sýklalyfjastjórnunar sé fylgt;
iii.    skoðar hegðun sem stuðlar að misnotkun sýklalyfja;
iv.    eflir varnir og stjórnun í tengslum við sýkingar sem koma upp í sjúkrahúsum og heilsugæslu og dreifingu baktería með sýklalyfjaónæmi. 
d)    Að hvetja útgefendur lyfseðla og stjórnendur stýrihópa um sýklalyf til að vinna saman og veita eftirlit og endurgjöf.
e)    Nota gæðaviðmið og tölur til að mæla árangur og útkomur áætlana í sýklalyfjastjórnun;
f)    Tryggja að sýklalyf sem eru skráð í lyfjaforskriftasafni sjúkrahúss séu alltaf tiltæk; og
g)    Tryggja að skynsöm notkun sýklalyfja og varnir gegn sýklalyfjaónæmi séu „forgangsverkefni“ í árlegri verkáætlun sjúkrahússins.

Atriði sem þú ættir að vita
2.    Áætlanir í sýklalyfjastjórnun, ásamt sýkingavörnum og -stjórnun, geta aukið öryggi sjúklinga og gæði umönnunar og dregið úr sjúkrakostnaði yfir allt þjónustusviðið með því að bæta notkun sýklalyfja, auk þess sem að C. difficile sýkingum og öðrum aukaverkunum fækkar [19,42].

Dæmi 
Innleiðing sýklalyfjastjórnunar hefur haft eftirfarandi í för með sér [46]:
•    20% minni sýklalyfjaneyslu,
•    Færri tilfelli spítalasýkinga,
•    Styttri dvalartíma á sjúkrahúsum og 
•    33% lægri sýklalyfjakostnað. 

3.    Smitsjúkdómalæknar, sýklafræðingar og klínískir lyfjafræðingar eru lykilstjórnendur stýrihóps um sýklalyfjanotkun [56,76].

4.    Margir útgefendur lyfseðla og fleiri heilbrigðisstarfsmenn telja að þjálfun þeirra í skynsamri notkun sýklalyfja sé ófullnægjandi. Þeir kalla eftir staðbundnum viðmiðunarleiðbeiningum varðandi sýklalyf, ítarlega fræðslu og stýrihópum um sýklalyf [25,27]. 

5.    Læknar eru ábyrgir fyrir útgáfu lyfseðla og þeir þurfa að taka fullan þátt í sameiginlegri ákvörðunartöku með stýrihópi um sýklalyf [42].

6.    Til þess að stýrihópar um sýklalyf nái árangri þurfa þeir traustan stuðning annarra lykilstarfsmanna sjúkrahússins, t.d. sérfræðinga í sýkingavörnum og -stjórnun, lækna bráðamóttöku, faraldsfræðinga, hjúkrunarfræðinga og starfsfólks í upplýsingatækni [42,77].

7.    Betri notkun sýklalyfja á bráðamóttökunni getur stuðlað að bættri sýklalyfjanotkun um alla stofnunina þar sem bráðamóttakan er yfirleitt fyrsti viðkomustaður sjúklinga [77].

8.    Bæði takmarkandi aðgerðir og sannfærandi aðgerðir geta minnkað notkun sýklalyfja [19,43,54,56]:
•    Takmarkandi aðgerðir eru t.d. kröfur um forsamþykki og eftirásamþykki fyrir ákveðin sýklalyf;
•    Sannfærandi aðgerðir fela í sér forvirkt eftirlit og endurgjöf frá smitsjúkdómalæknum, sýklafræðingum og lyfjafræðingum.

9.    Viðmiðunarleiðbeiningar fyrir sýklalyf og reglubundin námskeið bæta meðhöndlun lækna á sýkingum [78].

10.    Ákveðnar skipulagsáætlanir geta bætt ávísanavenjur á sýklalyf og horfur sjúklinga. Þær eru t.d. [54,79-81]:
•    ákvörðunartaka með hjálp tölvu sem tengir saman klínískar ábendingar, niðurstöður sýklarannsókna og gögn lyfjaávísanir og
•    notkun fljótlegra greiningarprófa á staðnum.

Það sem þú getur gert á þínu sjúkrahúsi eða stofnun
11.    Aðstoðaðu þverfaglegan stýrihóp um sýklalyf með því að útnefna sérstaka stjórnendur til að sinna ábyrgðarhlutverki og miðla lyfjaþekkingu, og með því að skilgreina stuðningshlutverk annarra lykilhópa [42,71]. 

12.    Settu stefnumál sem varða sýklalyfjastjórnun og sýkingavarnir í forgang, auk áætlana og aðgerða sem stuðla að skynsamlegri notkun sýklalyfja og koma í veg fyrir útbreiðslu baktería með sýklalyfjaónæmi [31,71]. 

13.    Útvegaðu fjármagn og aðföng fyrir áætlun í sýklalyfjastjórnun (þ.m.t. launakostnaður starfsfólks, tækjabúnaður og fljótlegar og staðbundnar greiningarprófanir) [31]. 

14.    Styrktu og kynntu fræðsluverkefni, þjálfun og fundi um sýklalyfjastjórnun og sýklalyfjaónæmi fyrir öllu heilbrigðisstarfsfólki (lækna, smitsjúkdómafræðinga, lyfjafræðinga, sýklafræðinga og hjúkrunarfræðinga) [19,53,56].

15.    Hertu eftirlitsaðgerðir með sýklalyfjanotkun og sýklalyfjaónæmi [56].

16.    Leggðu áherslu á að gagnreyndum viðmiðunarleiðbeiningum sé fylgt í tengslum við greiningu og stjórnun algengra sýkinga og fyrirbyggjandi sýklalyfjagjöf fyrir aðgerð. Ef þessar viðmiðunarleiðbeiningar eru ekki til staðar á þínu sjúkrahúsi skaltu hvetja til þess að þær verði settar saman [31,54,56].

17.    Leggðu áherslu á að niðurstöður sýklarannsókna og upplýsingar um sýklalyfjaónæmi á staðnum sé notað við gerð viðmiðunarreglna og val á reyndum sýklalyfjum [31].

18.    Leggðu áherslu á að gagnreyndum viðmiðunarleiðbeiningum sé fylgt í tengslum við aðgerðir við sýkingavörnum, til að draga úr útbreiðslu baktería með sýklalyfjaónæmi [82]. 

19.    Leggðu áherslu á forvirkt eftirlit og sjáðu til þess að einstakir útgefendur lyfseðla fái endurgjöf [54,56].

20.    Leggðu áherslu á jafningarýni við útgáfu lyfseðla og meðferð sýkinga og stuðlaðu að samskiptum á meðal heilbrigðisstarfsfólks [71].