Lykilskilaboð sem eiga erindi til allra sem ávísa lyfjum

helstu skilaboð

Það sem þú getur gert 

1.    Kynntu þér og tileinkaðu þér allar ráðleggingar um sýklalyfjanotkun og sýkingavarnir sem eiga við þitt sérsvið [samhljóða sérfræðiálit]. 

2.    Ef þú sérð samstarfsfólk á sjúkrahúsi eða heilbrigðisstofnun brjóta gegn viðmiðunarleiðbeiningum eða aðferðarlýsingu, spurðu af hverju það gerði það og láttu það fá upplýsingar til þess að það geri sér grein fyrir mistökum sínum [69] [samhljóða sérfræðiálit].

3.    Kynntu þér staðbundið mynstur sýklalyfjaónæmis á þinni deild, sjúkrahúsi og í samfélaginu [31] [samhljóða sérfræðiálit]. 

4.    Ef þú ert í vafa um að ávísa sýklalyfjum skaltu gera eftirfarandi [25,26,53,70] [samhljóða sérfræðiálit]:
•    Athugaðu staðbundin, svæðisbundin og landsbundin faraldsfræðileg gögn.
•    Leitaðu ráðlegginga frá eldra samstarfsfólki eða meðlimi í stýrihópi um sýklalyf.

5.    Gakktu úr skugga um að sýnataka fari rétt fram og sýni send í ræktun á sýklarannsóknadeild, áður en sýklalyfjameðferðin hefst [31,42,70,71].

6.    Aldrei byrja sýklalyfjameðferð nema að það sé ótvírætt að um bakteríusýkingu sé að ræða og ekki meðhöndla bólfestu [31,72].

7.    Reyndu að forðast óþarfar forvarnir með sýklalyfjum [31,73].

8.    Ef sjúklingar eru með alvarlegar sýkingar skaltu hefja markvissa sýklalyfjameðferð eins og fljótt og mögulegt er [31,74]. 

9.    Skráðu ábendinguna fyrir sýklalyfjameðferð, lyfjaval, skammt, inntökuleið og lengd meðferðar í sjúkraskrá sjúklingsins [31,42,70,71]. 

10.    Taktu reglulega þátt í námskeiðum og fundum sem stuðla að því að sjúkrahúsin innleiði: a) skynsama sýklalyfjanotkun, b) gagnreyndar og staðbundnar viðmiðunarleiðbeiningar í tengslum við sýklalyf og c) sýkingavarnir og aðgerðir í tengslum við þær[52,53].

11.    Svaraðu eftirfarandi lykilspurningum við endurmat á sýklalyfjameðferð eftir 48-72 klst. (eða um leið og niðurstöður sýklarannsókna eru ljósar) [42,70]: 
Er sjúklingurinn með sýkingu sem mun bregðast við sýklalyfjum?
Ef já;
i.    Er sjúklingurinn á réttum sýklalyfjum, er skammturinn réttur og er inntökuleið rétt?
ii.    Væri hægt að nota sýklalyf með þrengra virknisvið til meðferðar gegn sýkingunni?
iii.    Hversu lengi ætti sjúklingurinn að fá sýklalyf?